13.6.2011 | 17:19
Pizzuveisla og myndasýning
Þegar við vorum úti í Hollandi ákváðum við að halda myndasýningu fyrir foreldra okkar þegar við kæmum heim. Þá ætluðum við líka að gefa Eiríki klossann sem við máluðum í Hollandi sem hann getur átt til minningar um Frumurnar.
Myndasýningin var föstudaginn 10. júní heima hjá Ingu. Það var vel mætt. Allir krakkarnir mættu nema Sigrún Birna sem er enn í útlöndum. Þá komu foreldrar flestra krakkanna með. Við byrjuðum á því að borða pizzur og drekka gos. Síðan fékk Eiríkur klossann. Við höldum að hann hafi ekkert vitað um það þegar við vorum að mála klossann í Delft. Við rifjuðum líka upp úr ferðalaginu það var margt sniðugt sem gerðist og hægt er að hlæja að.
Þegar allir höfðu borðar fórum við inn og skoðuðum myndirnar og myndböndin. Allir skemmtu sér vel og Eiríkur var glaður með gjöfina. Allir eiga að fá eintök með myndunum til að eiga seinna meir.
Nú er ævintýrinu okkar lokið - það var frábært að fá tækifæri til að vera með og kynnast öllu því sem við upplifuðum í Hollandi.
Bestu kveðjur - Frumurnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.6.2011 | 22:03
Á leiðinni heim
Við tókum daginn nokkuð snemma í dag því að það átti að ná í okkur klukkan 9 og skutla okkur á lestarstöðina. Þar sem við biðum fyrir utan hótelið kom japanska vinkona strákanna en hún og maðurinn hennar bjuggu líka á hótelinu. Það urðu miklir fagnaðarfundir með knúsi og vinahótum. Nú erum við komin með nafnspjaldiði hennar því hún vill halda sambandi. Kannski fáum við bara flugfarseðla til Japan dag einn. Við erum sko til í það.
Bílarnir sem áttu að ná í okkur komu aðeins of seint. Ástæðan var sú að þeir áttu fyrst að ná í lið frá Asíu og koma honum á lestarstöðina. Þegar bílarnir komu á það hótel beið ekkert lið, allir höfðu sofið yfir sig. Það var gengið í það að drífa fólkið af stað svo það myndi ekki missa af sínu flugi. En eins og alla ferðina vorum við tilbúin þegar átti að fara af stað.
Það tók lestina frá Delft rúmlega klukkutíma að fara á Schiphol flugvöll og þegar við komum þangað kvöddum við Sigrúnu Birnu og foreldra hennar en þau flugu til Rómar seinna í dag. Við gátum aðeins skoðað okkur um fríhöfninni á Schiphol, keypt nammi og fengið okkur að borða. Flugvélin okkar fór svo tæplega hálf þrjú í loftið. Flugfreyjurnar hrósuðu okkur og sögðu að þetta væri einstaklega prúður hópur. Þær vildu líka vita helling um það sem við vorum að gera í Hollandi.
Þegar við lentum í Keflavík þynntist hópurinn enn frekar. Þær Hildur, Ingibjargirnar og Salka áttu nefnilega að spila fótboltaleik við Njarðvík klukkan fimm. Auðvitað stóðu Sindrastelpurnar sig með prýði og unnu leikinn 10 0. Nú eiga þær eftir keyra austur í kvöld og nótt.
Við hin héldum áfram og stoppuðum næst á Subway á Selfossi og fengum okkur að borða. Eftir því sem að austar dró varð meira öskumistur. Það er víst búið að vera fremur slæmt í dag en vonandi komumst við nú samt heim.
Þegar þetta er skrifað erum við að renna fram hjá sýslusteininum á á Skeiðarársandi. Því miður getum við ekki sett inn myndir núna en þær koma á morgun
Kveðja Frumurnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2011 | 20:45
Síðasti dagurinn í Hollandi
Það var gott að geta sofið lengur í morgun. Við fórum ekki í morgunmat fyrr en klukkan 9 og sáum þá að það var rigning. Við vorum búin að ákveða að fara á Tæknivísindasafnið hér í Delft. Við tókum strætó þangað og það gekk ljómandi vel. Við vorum í fjóra tíma á safninu. Það mátti fikta í öllu en tækin voru misskemmtileg. Það var m.a. hægt að byggja hús og láta síðan koma jarðskjálfta þangað til að húsin hrundu. Þá lærðum við líka hvernig á að búa til lífrænt eldsneyti. Það var líka hægt að standa inni í búri og úr loftinu féllu boltar sem átti að grípa og setja í trekt. Einnig var hægt að stjórna róbótum og fara í tölvuleiki. Svo var nokkuð af þrautum sem átti að leysa.
Þegar við vorum búin á safninu röltum við í bæinn. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða. Í bænum voru ýmsar uppákomur. Til dæmis var fólk á stultum og fjöllistafólk. Eftir að hafa fylgst með um stund var ákveðið af hafa frjálsan tíma í tvo tíma. Þá kíktum við aðeins í búðir og keyptum ís. Klukkan sex hittumst við hjá stærsta kirkjuturninum og fórum þaðan á ítalskan veitingastað þar sem við borðuðum pizzur og pasta. Af því að Eyjalín Harpa á afmæli í dag þá fékk hún ís sér til heiðurs. Og auðvitað var sungið fyrir hana nokkrum sinnum í dag.
Um hálf níuleytið röltum við heim á leið. Komum við í sjoppu og keyptum smá nammi. Nú ætlum við að fara að pakka. Á morgun klukkan níu leggjum við af stað frá Delft og flugið okkar heim er klukkan tvö. Vonandi gengur ferðalagið heim vel.
Meira síðar - kveðja Frumurnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.6.2011 | 20:58
Keppninni nú lokið
Mörg okkar voru þreytt þegar við fórum á fætur í morgun því við vöknuðum fyrir sex. Enn einu sinni vorum við fyrst í rútuna sem átti að fara af stað klukkan sjö. Frakkarnir sem hafa verið með okkur í rútu komu aðeins of seint. Við vorum búin að keyra um það bil hálfan kílómeter þegar einhverjir Frakkanna fóru að skrækja. Það höfu nefnilega tveir úr liðinu gleymt að vakna í morgun. Bílstjórinn bakkaði til baka og eftir smástund birtust drengirnir og við gátum farið af stað.
Þegar við komum á bílastæðið þar sem rúturnar stoppa sáum við nokkra pony hesta og auðvitað prófuðum við að kalla á þá. Og viti menn einn hestanna skildi íslensku og kom. Hann vildi meira að segja að láta klappa sér.
Þegar við mættum á keppnisstaðinn héldum við áfram að kynna landið okkar, einhverjir fóru að blogga. Við hittum síðan dómarana sem dæmdu róbótinn okkar. Og við áttum eftir að keppa einu sinni enn í brautinni. Það gekk bærilega.
Eins og áður fengum við matarpoka sem við fórum með út í blíðuna. Eftir hádegið byrjaði úrslitakeppnina á róbótanum. Einhverjir úr hópnum létu sig hafa það að horfa á keppnina. Hitinn í dag var mikill og varla hægt að vera þarna inn. Mesti hitinn sem sást á símanum hans Eiríks í stóra salnum voru 36°C. Okkar fólk vildi því frekar vera úti og helst í skugga. Eftir úrslitakeppnina áttu allir að ganga frá kynningarbásunum. Askan okkar var búin og lítið orðið eftir af grjótinu. Við höfum líka fengið ýmis konar dót frá hinum liðunum.
Klukkan hálf fjögur byrjaði lokahátíðin. Hitinn var orðinn meiri og nánast óbærilegt að vera inni í stóra salnum. Það voru nokkur verðlaun fyrir hitt og þetta en keppnina unnu mætir menn og eflaust skyldir mæðgunum í ferðinni. Það voru sem sagt Þjóðverjar sem unnu.
Við komum heim á hótel rétt fyrir kvöldmat og skröltum út á Mcdonalds og borðuðum þar.
Eiríkur, Hjördís og Kristján segja að við höfum staðið okkur vel og verið landi og þjóð til sóma.
Meira á morgun - kveðja Frumurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2011 | 07:15
Föstudagurinn langi
Jæja nú erum við aftur mætt á keppnistað, sumir eru ennþá dálítið þreyttir og syfjaðir enda fórum við á fætur klukkan 6 (klukkan 4 á Íslandi). En nú ætlum við aðeins að segja frá því sem gerðist í gær.
Við vorum komin hingað klukkan 8 í gærmorgun. Eiríkur byrjaði á því að fara yfir skipulag dagsins en það er mjög mikilvægt að vera með allar tímasetningar á hreinu. Ef að við mætum ekki á réttum tíma í það sem á að gera getum við átt á hættu að missa af því sem við áttum að gera. Tvisvar sinnum í gær fengum við tíma til að æfa á brautinni og svo kepptum við líka tvisvar.
Klukkan hálf tíu fórum við að taka okkur til fyrir opnunarhátíðina sem hófst klukkan 10. Lið frá sömu löndum þurftu að vera saman og hvert land fékk fána. Síðan var haldin "míni" skrúðganga þar sem allir gengu í stóran sal. Þar voru haldnar nokkrar ræður og mótið síðan sett.
Klukkan eitt fluttum við rannsóknarverkefnið og það gekk mjög vel. Seinna um daginn mættum við aftur til dómara sem voru að skoða hvernig við vinnum saman. Krakkarnir fengu stíf reypi og blað. Á blaðinu voru þrjár myndir sem hægt var að nota sem hugmyndir. Krakkarnir áttu að búa til hlut úr spottunum en það mátti alls ekki tala saman. Það gekk líka ágætlega. Við megum þó ekki sýna myndir af því hvernig til tókst núna því það eru enn mörg lið sem eiga eftir að leysa þessa þraut. Við kepptum líka tvisvar í brautinni og það gekk bara vel.
Það er sannarlega nóg að gera á milli þess sem við erum að keppa. Það þurfa alltaf einhverjir að vera við básinn okkar og kynna Ísland. Það þarf líka að spjalla við aðra og skoða þeirra bása. Og svo er í gangi leikur sem allir verða að taka þátt í. Þegar við mættum fengum við 20 appelsínugula og tvo gula kubba. Ef að við eignumst vini getum við gefið þeim appelsínugula kubba og eins geta aðrir gefið okkur. Við eigum að gefa alla okkar kubba og auðvitað vonumst við til að fá jafnmarga til baka. Gulu kubbarnir gilda sem stig og það eru dómarar sem eru sífellt á ferðinni sem gefa þá. Núna erum við komin með 10 gula kubba.
Í hádeginu fáum við nestspoka og af því að veðrið er svo gott sitjum við úti. Kvöldmatinn borðum við svo í stóru mötuneyti.
Í gærkveldi var kvöldvaka. Þar komu ýmsar þjóðir fram sem skemmtiatriði. Þetta var nú ágætt en það var alveg ótrúlega heitt í salnum þannig að við fórum út að leika okkur í strandblaki.
Liðin sem taka þátt í keppninni eru mjög mismunandi. Mörg liðanna eru bara venjulegir krakkar eins og við. En svo eru önnur lið sem skera sig svolítið úr. Það má t.d. segja um liði frá Singapúr. Krakkarnir þaðan eru flestir yngri en við en eru öll á 3. ári í háskóla að læra verkfræði heima sjá sér.
- Frumurnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2011 | 20:49
Nú erum við þreytt
Já það er sko engu logið um það að nú eru Frumurnar dauðþreyttar. Við vöknuðum um sexleytið í morgun og vorum rétt áðan að koma heim. Við vorum sem sagt í 15 klukkustundir á mótssvæðinu í dag. Á morgun þurfum við að vakna enn fyrr því það kemur rúta að ná í okkur klukkan 7 í fyrramálið og þá þurfum við að vera búin að borða mogunmat.
Það gekk ljómandi vel í dag. Við ætlum að skrifa nánar um daginn í fyrramálið og setja þá líka inn myndir - en þú þurfum við að fara að sofa og safna kröftum fyrir morgundaginn.
kveðja Frumurnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2011 | 21:13
Fyrsti alvöru dagurinn
Mikið var nú gott að geta sofið aðeins lengur í dag. Við mættum í morgunmat um níuleytið og strax á eftir héldum við fund. Þar var farið yfir dagsskrána og hvert okkar hlutverk væri.
Það kom svo rúta til að ná í okkur rétt um ellefu. Með okkur í rútunni voru líka lið frá Sádi Arabíu og Frakklandi. Krakkarnir frá Sádi Arabíu voru með trommur og héldu uppi fjöri í rútunni.
Þegar við komum í skólann þar sem keppnin fer fram tóku á móti okkur tvær konur, þær Hante og Zeineb. Þær eiga að fylgjast með að víð mætum á réttum tíma þar sem við þurfum að koma og eins að aðstoða ef þess þarf. Þær sögðu Eiríki hvert ætti að fara til að skrá okkur og því næst sýndu þær okkur svæðið og hvar við eigum að vera með okkar bás. Þær sáu einnig til þess að við fengjum að borða.
Eftir matinn byrjuðum við á því að setja upp básinn okkar. Við erum nú ekki með mikið dót miðað við marga aðra. En askan okkar úr Eyjafjallajökli og Grímsvötnum hefur heldur betur slegið í gegn.
Það tók nokkurn tíma að setja upp básinn en okkur finnst hann bara snotur. Okkar hlutverk er m.a. að vera við básinn og vera tilbúin að tala við fólk og kynna landið okkar. Við hittum fólk í dag sem vissi ekki hvar Ísland er. Það var líka gaman að labba á milli og skoða og spjalla við aðra. Við erum búin að kynnast fullt af fólki í dag og eignast vini. Tvisvar sinnum fengum við að æfa okkur á brautinni og það gekk nú svona þokkalega.
Klukkan sjö í kvöld fengum við síðan kvöldmat í risastóru mötuneyti í skólanum. Því næst var farið með okkur til baka á hótelið og þar héldum við fund. Dagurinn í dag var nefnilega til að koma sér fyrir og átta sig á aðstæðum. Á morgun byrjar keppnin sjálf fyrir alvöru og það verður nóg að gera. Það verður náð í okkur klukkan hálf átta í fyrramálið (klukkan hálf sex hjá ykkur heima) og síðan er dagskrá til 10 annað kvöld. Við þurfum að keppa með róbótinn tvisvar á morgun, flytja rannsóknarverkefnið, útskýra verkefnið og segja frá hvernig við unnum saman. Þá fáum við líka tíma til að æfa okkur í brautinni.
Áður en við fórum að sofa röltum við út í McDonalds og fengum ís. Það var frábært.
Upplifun okkar af deginum er frábær en samt svolítið skrítið að þurfa að tala svona mikið á ensku.
Vonandi gengur okkur vel á morgun - bestu kveðjur Frumurnar
Bloggar | Breytt 3.6.2011 kl. 06:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2011 | 20:55
Reykjavík - Schiphol - Delft
Já það gekk bara ótrúlega vel að vakna. Reyndar var búið að segja okkur það væri á okkar ábyrgð að vera tilbúin þegar við ætluðum að fara kortér í fimm af stað til Keflavíkur. Það vildi enginn taka séns á því að missa kannski af flugvélinni. :P Það tók töluverðan tíma að innrita alla en allt hafðist þetta nú að lokum.
Við lentum á Schiphol flugvelli um eitt að hollenskum tíma. Fyrst þurftum við að bíða heillengi eftir töskunum. Þegar við komum út úr flugstöðinni kom til okkar starfsmaður FLL og hjálpaði okkur við að kaupa lestarmiðana. Hann sagði okkur líka á hvaða brautarpall við áttum að fara. Við fórum inn í lest sem við vorum nokkuð viss um að væri að fara til Delft. Spurðum samt til að vera örugg og sá sem svaraði sagði að lestin færi ekki þangað en við gætum farið áfram þrjár lestarstöðvar og skipt þar um lest. Nú og auðvitað hlýddum við og fórum út með allt okkar hafurtask. En á þeirri lestarstöð var okkur nú sagt að lestin sem við vorum nýkomin úr væri að fara til Delft og við auðvitað inn í lestina aftur með allt okkar hafurtask. Og lestin endaði í Delft. Þegar við komum þar út var kominn steikjandi hiti. Fyrst máttum við burðast með draslið okkar töluverða leið. Á endanum komumst við þó þar sem bílar biðu eftir okkur og skutluðu okkur á hótelið. Mikið var gott að vera laus við töskur sem m.a. innihéldu steina og ösku úr bæði Eyjafjallajökli og Grímsvötnum.
Eftir að hafa innritað okkur á hótelið settumst við aðeins niður í hótelgarðinum og einhverjir sleiktu sólina . Svo ákváðum við að labba niður í bæ. Það var eitt nýtt sem við þurftum að læra í dag. Hér eru ótrúlega margir á hjólum og þeir gera ráð fyrir því þar sem gangstígur og hjólastígur eru á sama stað að gangandi vegfarendur labbi í beinni línu. Og það eru ekki bara reiðhjól á þessum stígum. Þarna eru líka vespur og bifhjól. Það var svo margt nýtt og spennandi að sjá það þar var erfitt að labba bara í beinni línu. Það gekk þó betur á heimleiðinni.
Niðri í bæ sáum við helling af gömlum fallegum byggingum. Við borðuðum svo ljómandi góðan mat á kínversku veitingahúsi. Þegar við komum heim var haldinn fundur. Á morgun tekur alvara lífsins við og því er mikilvægt að vera vel hvíldur og vel stemmdur. Og það verður nú að viðurkennast að flestir eru orðnir þreyttir eftir langan og strangan dag.
Meira á morgun - Frumurnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.5.2011 | 22:36
31. maí - loksins byrjar ferðalagið
Jæja, nú er þetta allt að fara að bresta á. Við erum sem sagt öll komin til Reykjavíkur. Einhverjir fóru snemma af stað en flestir fóru um þrjúleytið og það var grenjandi rigning alla leiðina. Við stoppuðum fyrst á Klaustri og síðan á Selfossi þar sem við fengum okkur KFC.
Þegar við komum í bæinn var haldinn fundur yfir það sem framundan er. Úff, við þurfum víst að vakna klukkan fjögur í nótt. Vonum að það gangi vel .
-Frumurnar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2011 | 16:01
Enn nóg að gera
Á þriðjudagskvöldið var haldinn fundur með foreldrum okkar. Við fluttum verkefnið á ensku og fórum yfir fyrirkomulagið á ferðinni. Það gekk allt ljómandi vel.
Í dag fimmtudag erum við búin að vera mjög dugleg. Eins og allir vita er búið að vera gos í Grímsvötnum frá því í siðustu viku. Sem betur fer virðist því vera að ljúka. Okkur datt í hug að það gæti verið gaman að fá ösku úr því gosi til að fara með sem minjagrip. Með töluverðri fyrirhöfn fengum við smávegis af ösku sem við erum nú búin að setja í litla poka og merkja. Þá fóru strákarnir og Ingibjörg V út í Ósland að tína slípaða steina en við ætlum líka að fara með þá sem minjagripi.
Þá erum við líka búin að æfa okkur svolítið í brautinni. Þetta fer nú allt að verða tilbúið
bless í bili - Frumurnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Færsluflokkar
Bloggvinir
Myndaalbúm
Af mbl.is
Fólk
- Endurgerði þekkt kvikmyndaveggspjald buxnalaus
- Liam Payne borinn til grafar
- Elton John mætti allnokkrum kílóum léttari
- Fyrrverandi Playboy-kanína fær ekki aðgang að stefnumótaforriti
- Jarðarför Liams Payne í dag
- Vaknar grátandi af söknuði um miðjar nætur
- Náði botninum við dánarbeð ömmu sinnar
- Aldís Amah með hlutverk í Hallmark-jólamynd
- Dyrnar opnaðar inn í myrkt samband Sonny og Cher
- Taylor Swift eftirherma á leið til Íslands
Viðskipti
- Hlutverk Kviku að sýna frumkvæði á bankamarkaði
- Þjóðverjar taka við rekstri Fríhafnarinnar
- Trump lyftir Bitcoin-verði í hæstu hæðir
- Ekki svigrúm til frekari launahækkana
- Sækja fjármagn og skala upp
- Óttast að fólk fari aftur að eyða peningum
- Innherji: Frekari uppsagnir en nú tveir forstjórar
- Verulega hægt á hagvexti frá byrjun síðasta árs
- Fimm fyrirtæki verðlaunuð
- Beint: Ásgeir fer yfir vaxtaákvörðunina