4.6.2011 | 07:15
Föstudagurinn langi
Jæja nú erum við aftur mætt á keppnistað, sumir eru ennþá dálítið þreyttir og syfjaðir enda fórum við á fætur klukkan 6 (klukkan 4 á Íslandi). En nú ætlum við aðeins að segja frá því sem gerðist í gær.
Við vorum komin hingað klukkan 8 í gærmorgun. Eiríkur byrjaði á því að fara yfir skipulag dagsins en það er mjög mikilvægt að vera með allar tímasetningar á hreinu. Ef að við mætum ekki á réttum tíma í það sem á að gera getum við átt á hættu að missa af því sem við áttum að gera. Tvisvar sinnum í gær fengum við tíma til að æfa á brautinni og svo kepptum við líka tvisvar.
Klukkan hálf tíu fórum við að taka okkur til fyrir opnunarhátíðina sem hófst klukkan 10. Lið frá sömu löndum þurftu að vera saman og hvert land fékk fána. Síðan var haldin "míni" skrúðganga þar sem allir gengu í stóran sal. Þar voru haldnar nokkrar ræður og mótið síðan sett.
Klukkan eitt fluttum við rannsóknarverkefnið og það gekk mjög vel. Seinna um daginn mættum við aftur til dómara sem voru að skoða hvernig við vinnum saman. Krakkarnir fengu stíf reypi og blað. Á blaðinu voru þrjár myndir sem hægt var að nota sem hugmyndir. Krakkarnir áttu að búa til hlut úr spottunum en það mátti alls ekki tala saman. Það gekk líka ágætlega. Við megum þó ekki sýna myndir af því hvernig til tókst núna því það eru enn mörg lið sem eiga eftir að leysa þessa þraut. Við kepptum líka tvisvar í brautinni og það gekk bara vel.
Það er sannarlega nóg að gera á milli þess sem við erum að keppa. Það þurfa alltaf einhverjir að vera við básinn okkar og kynna Ísland. Það þarf líka að spjalla við aðra og skoða þeirra bása. Og svo er í gangi leikur sem allir verða að taka þátt í. Þegar við mættum fengum við 20 appelsínugula og tvo gula kubba. Ef að við eignumst vini getum við gefið þeim appelsínugula kubba og eins geta aðrir gefið okkur. Við eigum að gefa alla okkar kubba og auðvitað vonumst við til að fá jafnmarga til baka. Gulu kubbarnir gilda sem stig og það eru dómarar sem eru sífellt á ferðinni sem gefa þá. Núna erum við komin með 10 gula kubba.
Í hádeginu fáum við nestspoka og af því að veðrið er svo gott sitjum við úti. Kvöldmatinn borðum við svo í stóru mötuneyti.
Í gærkveldi var kvöldvaka. Þar komu ýmsar þjóðir fram sem skemmtiatriði. Þetta var nú ágætt en það var alveg ótrúlega heitt í salnum þannig að við fórum út að leika okkur í strandblaki.
Liðin sem taka þátt í keppninni eru mjög mismunandi. Mörg liðanna eru bara venjulegir krakkar eins og við. En svo eru önnur lið sem skera sig svolítið úr. Það má t.d. segja um liði frá Singapúr. Krakkarnir þaðan eru flestir yngri en við en eru öll á 3. ári í háskóla að læra verkfræði heima sjá sér.
- Frumurnar
Athugasemdir
Rosalega gaman að lesa bloggið frá ykkur og geta fylgst með svoleiðis gangi ykkur vel í dag
kv. Linda
Linda Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 14:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.