5.6.2011 | 20:45
Síðasti dagurinn í Hollandi
Það var gott að geta sofið lengur í morgun. Við fórum ekki í morgunmat fyrr en klukkan 9 og sáum þá að það var rigning. Við vorum búin að ákveða að fara á Tæknivísindasafnið hér í Delft. Við tókum strætó þangað og það gekk ljómandi vel. Við vorum í fjóra tíma á safninu. Það mátti fikta í öllu en tækin voru misskemmtileg. Það var m.a. hægt að byggja hús og láta síðan koma jarðskjálfta þangað til að húsin hrundu. Þá lærðum við líka hvernig á að búa til lífrænt eldsneyti. Það var líka hægt að standa inni í búri og úr loftinu féllu boltar sem átti að grípa og setja í trekt. Einnig var hægt að stjórna róbótum og fara í tölvuleiki. Svo var nokkuð af þrautum sem átti að leysa.
Þegar við vorum búin á safninu röltum við í bæinn. Við byrjuðum á því að fá okkur að borða. Í bænum voru ýmsar uppákomur. Til dæmis var fólk á stultum og fjöllistafólk. Eftir að hafa fylgst með um stund var ákveðið af hafa frjálsan tíma í tvo tíma. Þá kíktum við aðeins í búðir og keyptum ís. Klukkan sex hittumst við hjá stærsta kirkjuturninum og fórum þaðan á ítalskan veitingastað þar sem við borðuðum pizzur og pasta. Af því að Eyjalín Harpa á afmæli í dag þá fékk hún ís sér til heiðurs. Og auðvitað var sungið fyrir hana nokkrum sinnum í dag.
Um hálf níuleytið röltum við heim á leið. Komum við í sjoppu og keyptum smá nammi. Nú ætlum við að fara að pakka. Á morgun klukkan níu leggjum við af stað frá Delft og flugið okkar heim er klukkan tvö. Vonandi gengur ferðalagið heim vel.
Meira síðar - kveðja Frumurnar
Athugasemdir
Það er greinilega búið að vera mjög gaman hjá ykkur.
Og gott að allt hefur gengið vel.
Það hefur verið alveg frábært að fylgjast með ykkur hérna á síðunni.
Eigiði góða ferð heim.
Guðrún Ósk Óskarsdóttir (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.